3. maí 2007 19:17 (1 lesandi hefur sagt álit sitt.)
Draumur í dós
Fyrirlestraferðum í framhaldsskóla Það eru forréttindi að lifa með fötlun lauk formlega í dag við skemmtilega og hátíðlega athöfn í Menntamálaráðuneyti. Ég flutti fyrirlestur fyrir starfsfólk menntamála- og félagsmálaráðuneyta og aðra gesti undir heitinu Við stjórn á eigin lífi? Þar ræddi ég um hugtakið fötlun, mitt líf, skólamálin, sjálfstæði, samfélagið og margt annað með tilliti til málefna fatlaðs fólks.
Það var virkilega ánægjulegt að sjá hve margir mættu og sérstaklega Magnús Stefánsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra en þau styrktu verkefnið. Það er ánægjulegt að sjá stjórnendur þjóðarinnar staldra við og hlusta á fólkið í samfélaginu, það mætti taka til fyrirmyndar. Að loknu blaðrinu í mér tóku til máls ofangreindir ráðherrar og sögðu jákvæða reynslu sína af þessu verkefni og lýstu ánægju sinni. Þeirra orð eru mikil hvatning og gott veganesti út í lífið. Ásgerður Ólafsdóttir ræddi einnig við gesti og voru hennar orð mér einnig mikilvæg. Myndir eru komnar í albúm.
Það er skrítin tilfinning að vera búin að láta drauminn rætast. Það er alltof oft sem við efumst um okkur sjálf, eigin getu og tækifæri, það gerði ég fyrir nokkrum árum. Þegar ég ákvað að láta til skara skríða með fyrirlestrana og ýtti frá mér eigin efasemdum fóru hjólin að snúast og hér sit ég í dag, 26 framhaldsskólum síðar og ca. 100 fyrirlestrum. Hver segir svo að draumar geti ekki ræst?
Ég er afarþakklát ráðuneytunum, bakhópnum, aðstoðarfólki, fjölskyldu minni og öðrum stuðningsaðilum fyrir að láta verkefnið verða að veruleika. Það hefur ekki aðeins uppfyllt minn draum heldur einnig þroskað mig, eflt sjálfstæði og víkkað viðhorf mitt til hins betra. Ég mun áfram flytja fyrirlestra mína á eigin vegum, þróa þá og bæta á meðan eftirspurn er – þetta er alltof skemmtilegt starf til að hætta þvi strax. Einnig vona ég að þetta verkefni verði öðrum hvatning og innblástur svo umræðan og uppfræðslan haldi ótrauð áfram. Að takast á við þetta fyrirlestraverkefni eru ein af þeim mörgu forréttindum sem fylgja því að lifa með fötlun.
Maðurinn er ekki stærri en draumar hans, hugsjónir, vonir og áform. Manninn dreymir og með því að láta drauminn rætast er það draumurinn sem skapar manninn.-Óþekktur höfundur.