![]() ![]() ![]()
![]() ![]()
![]() 22. júlí 2009 3. október 2007 16. júlí 2007 11. júlí 2007
![]() |
![]() Kæru ráðherrar, skólameistari, starfsfólk, nemendur og aðrir viðstaddir, það er frábært að hafa ykkur öll hér í dag. Ég var á fyrsta ári hér í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þegar tímamót áttu sér stað í mínu lífi, hægt og rólega var ég að átta mig á lífi mínu og tilveru sem ung fötluð manneskja. Það var í sálfræði sem við fengum verkefnið að fjalla um einhvern minnihlutahóp í fyrirlestraformi og fannst mér það afar áhugavert. Ég las listann yfir og sá þá að hvergi var málaflokkur fatlaðs fólks, stakk það mig. Ég velti fyrir mér í svolitla stund hvort ég ætti að biðja um að fá að taka hann fyrir, var mjög tvístígandi, en lét til leiðast. Ég man að á þessu augnabliki flaug í gegnum huga mér minning um skólasystir mína sem deildi í grunnskóla með okkur hræðilegri reynslu sinni af einelti. Ég man að sú fræðsla var mér eins og ísköld skvetta framan í andlitið, hún var raunveruleg. Sú persónulega fræðsla sló mig svo fast að ég gleymi henni aldrei. Kannski var þetta einmitt eitthvað sem mig langaði til að gera. Sálfræði kennari minn tók vel í hugmynd mína, gaf mér nokkuð frjálsar hendur, og til varð fyrirlestur. Þessi fyrirlestur var allt, allt öðruvísi en ég hafði gert áður. Hann var persónulegur og byggður á reynslu og upplifun minni á heimi fatlaðs fólks, frekar en fræðilegum heimildum. Daginn sem ég flutti fyrirlesturinn var ég nánast á grafarbakkanum af stressi, fannst þetta allt ómögulegt, sá eftir öllu saman og fannst algjörleg bilun að ætla vera að þessu. En ég lét mig hafa það. Á meðan á fyrirlestrinum stóð fann ég að allar þessar neikvæðu hugsanir flugu í burtu, hvernig þær breyttust í vellíðan, því ég fann að fólk var að hlusta, hlusta með áhuga og athygli. Ég fann líka að með því að tjá mig svona fyrir framan aðra losaði ég um ákveðnar stíflur í mínu viðhorfi til lífsins, ég var líka að læra. Þegar upp var staðið var ég stolt af ákvörðun minni og þakklát kennara mínum, stuðningsfulltrúa og foreldrum fyrir að hvetja mig til þess af láta af þessu verða, því án þess stuðningsins grunar mig að ég hefði guggnað. Ánægjan með fyrirlesturinn var mikil meðal nemenda og upp frá honum hef ég komið inn í lífsleikni hér við skóla og á ýmsum öðrum vettvöngum með svipaða fræðslu. Þegar ég varð öruggari í flutningum og fór að þora að opna mig meira fann ég fljótt að það var eitthvað að ske. Rosalega var þetta skemmtilegt og lærdómsríkt. Smátt og smátt varð mér ljóst að það var tilgangur með minni fötlun, það var ástæða fyrir því að lífið hafði gefið mér þetta hlutskipti. Ég gekk með hugmyndina af verkefninu: Það eru forréttindi að lifa með fötlun í maganum í lengri tíma en ákvað svo loksins að mér væri ekki til setunnar boðið lengur. Ég horfði á málaflokk fólks með fötlun og sá hve staðnaður hann er, hve langt á eftir nágrannaþjóðum okkar við erum á mörgum sviðum og hve lítil mannréttindi, lífsgæði og frelsi við búum við hér á Íslandi. Ekki bara við með fötlunina, heldur fjölskyldur okkar líka. Það er af þeim ástæðum sem ég legg af stað út í verkefnið: Það eru forréttindi að lifa með fötlun. Mig langar að sýna ungu fólki, starfsfólki framhaldsskóla og samfélaginu í heild sinni hvað sé að samfélagi og skólakerfi, en um leið möguleika fatlaðs ungs fólks, styrkleika og kosti, og hvað við getum gert saman til að umhverfið okkar hætti að fatla okkur meira en fötlunin sjálf. Það er oft talað um fatlaða manneskju sem litla manninn eða manneskju sem gengur ekki heil til skógar. Því er ég ekki hlynnt því við erum jafn stór og þið, amk. að innan og göngum alveg jafn heil til skógar, við göngum bara öðruvísi. Við sem lifum með fötlun, hvernig sem hún er, erum megnug um svo margt. Í gegnum erfiðleikana hljótum við mikinn þroska og styrk, við lærum fljótt umburðarlyndi, víðsýni og jafnrétti og erum hluti af þeim hópi sem myndar fegurð heimsins, margbreytileika mannlífsins. Það er ákvörðun að vera hamingjusamur, neikvæður, reiður eða með fordóma. Við stjórnum því algjörlega sjálf hvernig við hugsum. Ég hef kosið að líta á mína fötlun sem gjöf sem mér var gefið til að eiga þátt í að opna dyr, brjóta múra og byggja brýr milli fatlaðs- og ófatlaðs fólks. Það er það, sem ég kalla forréttindi. Það hljómar ekki vel í eyrum allra, þetta með forréttindin. Fólk býr við ólíka fötlun, af ólíkum toga sem hefur mismikil áhrif á líf þeirra. Ég geri mig fulla grein fyrir því. Ég tel þó að af öllu illu komi eitthvað gott og ef við bara leitum nógu lengi finnum við hamingjuna í okkur sjálfum. Hver má taka sína ákvörðun, og þetta er mín, ég hef ákveðið að taka fötlun minni sem forréttindum. Fyrir rúmu ári fór ég á fund menntamálaráðherra og kynnti fyrir henni verkefnið og hugmynd mína á útfærslunni. Ég sá strax hve áhugasöm hún var á málaflokknum og hversu tilbúin hún var að skoða málið. Tíminn leið og loks var ákveðið að verkefnið skildi af stað þetta haust, styrkt af menntamálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu. Síðustu mánuði hefur undirbúningur því verið í fullum gangi, stofnaður var bakhópur og allir hafa unnið hörðum höndum. Það er óhætt að segja að verkefnið: Það eru forréttindi að lifa með fötlun hafi því ekki orðið til að sjálfu sér. Mikið af frábæru fólki hefur lagt mér lið á einn eða annan hátt og með því framlagi og aðstoð hefur verkefnið orðið að veruleika. Fyrst og fremst vil ég þakka menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra fyrir rausnarlegt framlag sitt til verkefnisins, það er mér mikils virði. Fyrirtækjunum Sýningarkerfi ehf., Leturprent og Ottó auglýsingastofu fyrir styrk til bæklinga- og annarra auglýsingagerðar, og að sjálfsögðu Fjölbrautaskólanum í Garðabæ fyrir að halda þessa opnun hátíðlega með okkur. Bestu þakkir fær einnig bakhópur verkefnis fyrir frábært, lifandi og skemmtilegt samstarf. Þar sitja með mér, Ásgerður Ólafsdóttir fulltrúi menntamálaráðuneytis, Hrefna Haraldsdóttir fulltrúi Sjónarhóls og Sigríður Daníelsdóttir fulltrúi Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi og félagsmálaráðuneytis. Að sjálfsögðu vil ég svo þakka fjölskyldu minni og vinum fyrir alla þá hvatningu sem ég hef fengið í gegnum lífið, ekki síst í þessu verkefni. Ég var einnig svo heppin að fá í lið með Helga Þór Gunnarsson, fötlunarfræðinema sem hefur nýlokið BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Hann skrifaði lokaritgerð sínu um ungt fólk með hreyfihömlun og er því búin að kynnast heimi okkar sem búum við fötlun. Ætlar hann m.a. að fylgja verkefninu eftir og gera athugun á fræðslunni, starfinu og aðgengi skólanna á hverjum stað. Ég hlakka mikið til þess samstarfs. Ég hef verið að undirbúa þessa fyrirlestra frá því ég kom í heiminn fyrir tuttugu árum síðan, því líf mitt hefur gefið mér þá vitneskju, reynslu og viðhorf sem ég hef í dag. Þakklátust er ég þess vegna lífinu fyrir að hafa gefið mér fötlun mína, en án hennar væri ég varla hér í dag, að fara af stað það með verkefnið: Það eru forréttindi að lifa með fötlun. Ég hlakka mikið til og vonast eftir að við getum öll lært hvert af öðru í vetur. Þakka ykkur öllum fyrir.
|